Færsluflokkur: Menning og listir

Missum Okkur!

Ég verð að viðurkenna það að ég skil þetta mál ekki alveg.. Ég las þessa færslu frá Gills fyrir nokkrum dögum og gat ekki séð neina hótum um ofbeldi í pistlinum. Það sem ég las var að Egill ásamt svo mörgum ungum mönnum og konum hefur fengið uppí kok af rétttrúnaðar femínisma sem gerir ekkert nema veikja málstað þeirra femínista sem raunverulega vilja breyta því sem betur má fara. Í pistlinum dró Egill þá ályktun að ákveðnir femínistar þyrftu líklega bara að fá að njóta almennilegs kynlífs. Hvað svo sem fólki finnst um þessa ályktun að þá er hún í fullkomnu samræmi við lífsviðhorf Gills. Sumir þessara femínista vildi Gills meina að væru svo illa haldnir að það dygði ekkert minna en nokkra vel vaxna menn til að ná úr þeim pirringnum. Ekki var þó tekið fram hvernig ástar-meðferð Gills færi fram, hvort þessir vel völdu folar ættu að fjölmenna á þessar konur, eða hvort þeir ættu að heimsækja þær einn í einu yfir ákveðinn tíma á meðan á meðferð stæði. 

Fréttaflutningur mbl hefur sjálfsagt ekki dregið úr viðbrögðunum hér. Ekki veit ég hvernig fréttamaður mbl komst að þeirri niðurstöðu að um hótun um kynferðisofbeldi væri að ræða? Kannski að einhver doktor í kynjafræði hafi afkóðað pistilinn fyrir blaðamanninn? Annars langaði mig að velta hér upp tveimur spurningum varðandi þetta mál.

Í fyrsta lagi; Mega bara sumir beita gálgahúmor (einsog t.d. Hugleikur eða Megas) og má þá sá gálgahúmor bara beinast gegn ákveðnum þjóðfélagshópum en ekki öðrum?

og í öðru lagi; Þegar talað er um kynlíf eða ástarleiki og femínista í sömu setningu, er þá alltaf átt við kynferðisofbeldi? Hafa femínistar einir rétt á því að upplifa öll boð um ástaratlot sem hótun um nauðgun? Upplifir þetta enginn sem móðgun við raunveruleg fórnarlömb nauðgana?

 

Góðar Stundir 

 


mbl.is Gillzenegger tók bloggfærslu út fyrir mömmu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áríðandi Tilkynning Frá Lúkas!

Mikið hlýtur að vera gaman hjá æðri máttarvöldum þessa daga eftir að þau frumsýndu verkið skemmtilega um ógæfuhundinn Lúkas á litla sviðinu í norðurhafi. Æðri máttarvöld meiga líka vera hamingjusöm með árangurinn, því verkið vakti mikla athygli fyrir rammsúrealíska þjóðfélagsádeilu.
Annars setti ég mig í samband við hundamiðil sem sérhæfir sig í lifandi hundum sem taldir eru af og náðum við sambandi við döðluhundinn lúkas. Hann vildi koma eftirfarandi skilaboðum áleiðis til fyrrverandi eigenda sinna:
Kæra mannfólk! Ég kæri mig ekki um að fara til hundarakara! Ég kæri mig ekki heldur um að fara í ljós né vera með eyrnalokka, hálsmen eða annað asnalegt og ókarlmannlegt glingur. Ég kæri mig ekki um að vera í þessum asnalegu fötum sem þið klæðið mig í. Ég kæri mig ekki um að vera meðhöndlaður sem barbídúkka. Ég er hundur! Voff! Comprende? Og að lokum, þá kæri ég mig ekki um að vera kallaður Lúkas!
Vegna alls þessa, þá átti ég engra annara kosta völ en að strjúka og ég bið ykkur vinsamlegast að láta það eiga sig að vera að reyna að ná í mig.

ps; Notiði getnaðarvarnir!

Í alvörunni!

Veriði sæl!


Íslensk Tónlist

Við foreldrarnir fórum í 30 ára afmæli vinar okkar í gærkvöldi og skildum Heklu eftir í umsjá ömmu og afa. Hún var hreint ekki á því að leyfa okkur að fara og mótmælti hástöfum.. í tæpa 2 klukkutíma! Ekki veit ég hvaðan hún hefur þessa þrjósku stúlkan. En við fórum nú engu að síður og skemmtum okkur mjög vel í veislunni sem haldin var á barnum sem liggur fyrir neðan hegningarhúsið. Fólk fékk þar að drekka allar sortir fríkeypis, nema ég, sem þurfti að borga fyrir sódastreamið.. Dálítið sérstakt.
Þetta var voðalega sæt veisla, ekkert of margir gestir en þeim mun vandaðari, s.s. fáment en góðment. Það sem stóð þó uppúr veislunni voru 2 hljómsveitir sem tróðu upp til heiðurs afmælisbarninu. Sú fyrri heitir Reykjavík Ég varð fyrir innblástri við að horfa á.. þvílík spilagleði, þvílíkt rokk, þvílík veisla! Ekki nóg með að lagasmíðar þeirra virtust vel yfir meðallagi góðar fyrir rokkhljómsveitir, heldur var sviðsframkoma þeirra mögnuð. Ég endurtek, ég varð fyrir innblástri! Reykjavík í Eurovision!
Á eftir þeim kom svo hljómsveitin FM Belfast. Ég hafði ekki séð þá hressu krakka á tónleikum áður, ekki frekar en Reykjavík. Skemst er frá því að segja að FM Belfast voru stórkostleg. Mátulega kærulaust tölvupoppið sem flytjendur höfðu greinilega unun af að færa áhorfendum veitti mér gæsahúð oftar en einu sinni þetta kvöld. Sérstaklega þá óvenjulegt cover þeirra af gamla RATM laginu, killing in the name of. Alveg frábært stuff! FM Belfast í Eurovision!
Greinilegt er að tónlistin lifir góðu lífi á íslandi í dag og það gleður mitt gamla pönk hjarta!

Veriði sæl!


Sovéskir Sjálfstæðismenn

Merkilegt að lesa pistla sjálfumglaðra Sjálfstæðismann þessa dagana. Var að lesa hér einn þar sem því er haldið fram að uppgangur sprotafyrirtækja sé Íhaldinu að þakka. 

Nú vill þannig til að ég hef fylgst afar vel með uppgangi fyrirtækisins CCP. Ég vann fyrir þá verkefni fyrir 4 árum, rétt um það leitið þegar að EVE ONLINE var að koma á markað. Á þessum tíma rambaði fyrirtækið á barmi gjaldþrots. Enginn utan CCP hafði sérstaka trú á því að þetta yrði eitthvað merkilegt, fæstir skildu hvað CCP voru að gera og flestum var alveg sama. Reynt var að ná í salt í grautinn hjá hinum ýmsu sjóðum ríkisins á meðan komist væri yfir erfiðasta hjallann. Allt voru það árangurslausar tilraunir. Ríkið sá ekkert merkilegt við fyrirtæki sem var að framleiða tölvuleik. Þegar svo leikurinn fór á markað erlendis sveiflaðist krónan upp og niður, sem gerði fyrirtækinu óbærilegt að gera út héðan frá Íslandi. Það er ekki Íhaldinu að þakka að aðalbækistöðvar fyrirtækisins, sem skilaði á síðasta ári miljarði í hagnað, eru ennþá á íslandi. 

Nánast sömu sögu má segja um Latabæ. Latibær hefur ekki fengið krónu í styrk frá Ríkinu. Það fyrirtæki hefur nú oftar en einu sinni verið á sama stað og CCP var. Menn höfðu jafnvel ennþá minni trú á að það gæti orðið eitthvað. Latibær lenti í sömu vandræðum með óstöðugleika krónunnar og CCP. 

Þess vegna er óhætt að segja að þessum fyrirtækjum hefur tekist hið ómögulega, ÞRÁTT fyrir ríkisstjórn Íhaldsins! Ég fæ óbragð í munninn þegar Sjálfstæðismenn telja uppgang þessara fyrirtækja vera sér að þakka.

Ég á fyrirtæki sjálfur sem er í útrás. Hugmyndin er góð, hefur verið testuð hér við góðan árangur, efnið er einstakt og hefur hlotið góðan hljómgrunn hvar sem við höfum kynnt það. En í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur það verið gersamlega ógerlegt að fá svo mikið sem eina krónu frá ríkinu í styrk, sama í hvaða sjóð er leitað.  Frumskógurinn er endalaus og reglurnar svo kassalaga að ekkert óvenjulegt hlýtur náð fyrir augum ríkisins. Reynt hefur verið að fá fund með menntamálaráðherra án árangurs.  Tekið skal fram að ég vinn við sömu iðn og Hrafn Gunnlaugsson. Skyldi það hafa verið vesen fyrir hann að fá fund með Þorgerði Katrínu þegar hann bjó til hina tímalausu snilld Skýrslumálastofnun eða hvað það var sem hún hét?

Í pistlinum sem ég linkaði í hér að ofan segir "Sprotafyrirtækin hafa vaxið í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur trúað því að fólkinu sé best treystandi að efla atvinnulífið, en ekki stjórnmálaflokkunum."

Þetta er sérstakt komment komandi frá flokki sem stendur í stórkostlegum atvinnu-töfralausnum í formi virkjanna og álvera..

Staðreyndin er einfaldlega sú að Sjálfstæðismenn eru Sovéskari en gömlu Sovétríkin. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband