Fjölmiðla-Sifjaspell

það er orðið langt síðan ég skrifaði hér síðast. Ég hef verið að velta því fyrir mér um hvað maður ætti að skrifa hérna eftir að kosningunum lauk því ég nenni ekki að standa í röfli um stjórnmál svona stuttu eftir kosningar. Heldur vil ég óska nýjum og eldri ráðherrum til hamingju með embættin og vona innilega að þeim takist að bæta hag okkar allra og að þeir verði okkur til sóma næstu 4 ár. 

Ég held að ég noti frekar þessa síðu til þess að blása út af og til um þjóðfélagsmál almens eðlis, án þess þó að ég búist við því að verða mjög afkastamikill á því sviði. 

Ég hef áður skrifað þá skoðun mína hér á blogginu að líklega hafi Davíð Oddsson haft töluvert til síns máls með fjölmiðlafrumvarpi sínu. Þetta sér maður æ oftar og virðist 365 samsteypan vera hægt og rólega að breytast í risavaxið skrímsli. Í dag sá maður foringjahollustuna leka af fréttablaðinu í umfjöllun sinni um mál Egils Helgasonar. Ég hef lauslega fylgst með málinu og ætla ekki að taka afstöðu til málsins hérna, þ.e. hver er að skrökva og hver ekki en mér fannst vægast sagt aumt að sjá pillurnar sem blaðið skrifaði um málið í dag.

Það hefur hallað verulega á 365 í þessu máli og nú á greinilega að nýta sér völdin til þess að breyta umfjölluninni. Samkvæmt blaðamanni voru þættir hins svikula Egils tóm þjáning á að horfa, Egill gat aldrei horft í rétta cameru, hikaði og stamaði í sífellu og ég veit ekki hvað og hvað.. Síðasta pillan er svo á þá leið að  nú þegar Egill er farinn, geti Stöð 2 loksins gert almennilegan umræðuþátt um pólitík. Þar er nefndur Heimir Már sem kandídat í að rúlla yfir þessar vandræðalegu tilraunir Egils til að halda uppi umræðuþætti. hmm..? Þessi ágæti penni sem skrifaði þessar pillur hefur greinilega átt mjög erfiða helgi.

Mikið rosalega er þetta aumkunarvert að ráðast svona á fyrrverandi samstarfsmann sinn. Jafnvel Þó að Egill hefði hegðað sér illa, gert vonda þætti, svikið allt og alla og brotið allt og bramlað, þá lætur fullorðið fólk ekki svona. Þetta er augljóslega hættan sem stafar af því að starfa á fjölmiðli sem á fullt af öðrum fjölmiðla systkinum. Má því segja að þegar að fjölmiðla systkinin hópa sér svona saman að hálfgert fjölmiðla-sifjaspell eigi sér stað.  

365 eru einfaldlega tapsárir yfir því að hafa misst yfirburðar mann til RÚV og vita mætavel að hvorki Heimir Már né aðrir fréttamenn stöðvar 2 eiga lítinn séns í að færa okkur jafn lifandi umræðu um pólitík og Egill hefur gert undanfarin misseri. Betra væri þó fyrir ásjónu fyrirtækisins að láta það eiga sig að hreyta ónotum í Egil, hvort sem það er gert á vísi.is, Bylgjunni, Stöð 2 eða Fréttablaðinu. 

Veriði sæl 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband