17.11.2007 | 20:25
Fordómafullur Fyrirliði
Ég hef verið að taka eftir sífellt opinskárri umræðu um "helvítis útlendingana" sem æða hingað til okkar óspillta lands til þess að nauðga og lemja á saklausu og hreinu samborgurum okkar.
Ég kippi mér svosem ekki mikið upp við það að heyra í bitrum og óttaslegnum andlegum öryrkjum sem tjá óumbeðið sínar misvitru skoðanir um þessi mál í símatímum útvarps Sögu. Reyndar hljómar sú stöð dálítið einsog að Tvíhöfði ráði þar ríkjum, slík er stundum geðveikin. Maður býst við því að heyra þessháttar vitleysu og fordóma á Sögu en mér hefur brugðið nokkrum sinnum undanfarið við að heyra fordómana koma frá meiri mainstream stöðum.
Ekki alls fyrir löngu heyrði ég einhverja dagskrárgerðarstúlku vera að pirrast útí útlendinga á útvarpsstöðinni FM957. Sá sem stjórnaði þættinum með henni var ekkert að benda henni á hversu forheimskulega hún hljómaði og hún fékk að tala sig út um sín ömurlegu viðhorf til útlendinga.
Í gær sá ég ör-viðtal við fyrirliða Íslandsmeistara Vals í knattspyrnu sem ég kann ekki nafnið á. Sá hafði áhyggjur af þeirri þróun að hingað streymdi ofbeldisfullur óþjóðalýður frá óæðri löndum og stæli hér öllu steini léttara. Vildi hann meina að þeir frambjóðendur Frjálslyndra sem vöruðu okkur við þróun mála fyrir kosningar síðasta vor hafi sannarlega haft sitthvað til síns máls. Spurning um hvernig erlendu liðsfélagar fyrirliðans tóku í þessi ummæli. Kannski átti fyrirliðinn við annarskonar útlendinga en þá sem koma til þess að hjálpa honum að sigra íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu?
Lengi vel trúði maður því í blindni að á Íslandi fyndist lítið af fordómum í garð útlendinga en nú þegar fyrst á reynir, eftir að við höfum þurft að reiða okkur á erlent vinnuafl vegna stórframkvæmda hér á landi, kemur annað í ljós. Ljóst er að á Íslandi þrífst nóg af illa upplýstu eða illa gefnu fólki til þess að fara fyrir fordómum á borð við þessa.
Ég verð að viðurkenna að þegar fyrirliði í sigursælu íþróttaliði, sem á sér sjálfsagt marga unga áhangendur, lætur út úr sér koment sem afhjúpar fordóma á borð við þetta, að þá er mér töluvert brugðið. Einnig bregður mér að heyra svona talað á vinsælustu útvarpstöð unga fólksins. Greinilegt er með þessu að æ fleiri eru að koma útúr skápnum með rasisma sinn og að við erum síður en svo skárri en aðrar þjóðir sem við höfum hneykslast á gegnum tíðina hvað þessi mál varðar.
Ég sá óborganlegt atriði í hinum frábæru þáttum Næturvaktinni fyrir stuttu þar sem Georg Bjarnfreðarson í frábærri túlkun Jóns Gnarr gerist uppvís af ekta íslenskum rasisma. Þar fannst mér takast mjög vel til við að opinbera hverskonar blábjánar við getum verið í þessum malum.
Útúrgóðar stundir.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Sjónvarp, Spil og leikir, Tónlist | Breytt s.d. kl. 20:37 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.