21.5.2007 | 14:39
Mánudagur
Ekki er laust við að það beri á andlegum timburmönnum eftir átök undanfarinna vikna hérna á blogginu. Nú þegar kosningum er lokið finnst mér alveg tilgangslaust að vera að tjá mig eitthvað um stöðu mála í stjórnamyndunum eða hver fær hugsanlega hvaða ráðuneyti. Nú er staðan sú að kjörnir fulltrúar gera það sem þeim sýnist alveg óháð því hvað mér finnst um það, því má líkja því við að freta útí vindinn að vera að tjá sig eitthvað um það hér. En hvað í ósköpunum á ég þá að skrifa um hérna? Spurning um að taka Ellý á þetta, gera svona sex in the city fyrir karlmenn? Prófum það..
"Var hún virkilega til í það?" Spurði ég og beit í sveittan vitaborgarann. "Já maður, alveg flippað sko.." Sagði vinur minn með sólheimaglott á vör. "Og hvað? Spurði ég og missti kokteilsósu niðrá buxurnar "Ég bara lét vaða maður, tók hana bara á orðinu" hélt vinur minn áfram sem ávalt virtist vera lenda í einhverskonar ævintýrum á borð við þetta "Ég skellti henni bara á bakið, klæddi mig í kafarabúninginn, náði í rækjusalatið, dúkahnífinn og kúbeinið, henti faxtækinu í samband og..
hmm.. þetta er kannski ekki alveg málið..
Ég nenni hreint ekki að skrifa meira um Ómar, það fer bara sína leið, þó virðist komentakerfið í færslunni hér fyrir neðan vera orðið einhverskonar skrímsli. Einhverjir óvildarmenn Ómars ásamt einhverjum vinum hans sjálfs (eða kannski bara hann sjálfur) að skrifast á undir mismiklum dulnefnum um kosti og galla þess að vera Ómar. Gaman að fylgjast með því öllu.. Fannst reyndar svolítið spaugilegt koment frá einhverjum óskráðum Baldri sem sagði að ég augljóslega sæi eftir þessu öllu núna.. Veit ekki hvernig sá maður fékk þá niðurstöðu, nema ef vera skyldi að viðkomandi sé ólæs á hæðni.
Þannig að ég veit hreinlega ekkert hvað ég á að skrifa hérna lengur. Ætli það sé ekki best að leggja höfuðið í bleyti og ákveða hvort eitthvað framhald verði á þessu eða hvort að maður fari að segja þetta gott.. Ég ætla að hugsa málið.
Veriði sæl!
16.5.2007 | 11:32
Er Ég Sá Fyrsti Til Að Vera Kærður Fyrir Blog?
Mig langar óskaplega að vita hvort þið vitið til þess að einhver hafi áður verið kærður fyrir blog á Íslandi? Ekki man ég til þess.. Látið mig endilega vita ef þið munið eftir einhverju álíka.
Ef ég yrði svo dæmdur sekur, þá yrði nóg að gera hjá hæstarétti næstu 50 árin, krakkar að kæra hvora aðra fyrir að kalla sig homma á irkinu, svo ekki sé nú minnst á þá fengitíð sem Ómar sjálfur yrði kominn í, þá fengi sko það fólk sem gert hefur gys af upplýsingafulltrúanum hérna á netinu heldur betur á baukinn. Svo minnist ég þess að hafa verið kallaður skíthæll einhverstaðar hjá einhverjum.. fer í að finna það, það gætu orðið einhverjar millur í skaðabætur, enda var andlegt áfall mitt við það töluvert.
Annars hef ég aldrei farið fyrir rétt áður eða verið leiddur fyrir dómara. Ég verð nú að segja að ég er töluvert spenntur yfir þessu. Ómar þekkir þetta sjálfsagt betur en ég, enda bjó hann í USA og hefur sjálfsagt lært þetta samskiptaform þar, eða kannski að hann hafi horft yfir sig á Matlock á yngri árum..?
Ég er að hugsa um að gera þér tilboð Ómar. Þú lætur málið niður falla, sparar þér tíma og pening og borgar mér 500.000 kall. Ef þú hugsar málið, þá er þetta fjári gott tilboð! Taktu þér tíma í að spá í þetta, have your people call my people..
Veriði sæl!
15.5.2007 | 20:35
Kæran Er Komin!
Jæja jæja.. Loks kom kæran frá Ómari R. Valdimarssyni sem ég er búinn að bíða svo lengi eftir. Ég sé framá að við fjölskyldan verðum að selja íbúðina og flytja úr vesturbænum sökum þrjósku minnar við að neita að taka ummæli mín um að Ómar væri rasisti niður af bloggsíðu minni. Hann fer framá 2. miljónir í skaðabætur (segir þetta hafa fengið mjög mikið andlega á sig, auk þess sem að hann hafi beðið álitshnekki). Svo vill hann 800.000 til þess að birta dómúrskurð í 3mur dagblöðum, svo þarf ég að ráða mér lögfræðing sem þarf auðvitað að borga.. þetta er alveg agalegt! Ég er stara framaní gjaldþrot hérna!!
Eða þannig..
En ég ætla að leggja hérna fyrir ykkur vini mína litla getraun, hvaða lögfræðingur haldið þið að hafi skrifað uppá stefnuna?? Sá sem getur rétt fær tóma aðdáun mína að launum.
Ekki vissi ég að Ómar þyrfti neina utanaðkomandi hjálp við að bíða álitshnekki..
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.5.2007 | 18:43
Sigurflokkarnir
Þjóðin hafnaði Jónínu og Jóni. þjóðin hafnaði spillingunni, ómálefnalegri kosningaherferð og stóriðjuofstækinu. Þjóðin hafnaði Framsókn. Auðvitað á Jón það ekki skilið að sér sé kennt um það, hann tók við besínlausum skrjóð sem hann gerði sitt besta til þess að lappa uppá en flokkurinn misreiknaði sig í mörgum veigamiklum málum. Þar held ég að áform um meiri stóriðju vegi þyngst ásamt íllkvitnislegri kosningaherferð sem betur á heima á gosdrykkjamarkaðinum en í pólitík.
Þjóðin kaus meiri áherslu á umhverfismál með því að hafna Framsókn og kjósa í staðinn VG sem ásamt Sjálfstæðismönnum eru sigurvegarar kosninganna. Ég held að það hljóti að kitla Geir, sem er nú með öll tromp á hendi, að freista þess að bjóða Villta Vinstrinu uppí með sér og mynda stjórn sigurvegaranna.
Margir spjátrungar sem keypt hafa þá grýlu að VG séu gamaldags flokkur fussa nú sjálfsagt og svei-a, en staðreyndin er sú að skynsamir menn innan Sjálfstæðisflokksins sem vita að sú grýla er einungis uppspuni hugnast mun meira að vinna með VG en S.
Þó svo að D-S stjórn væri fylgislega öflugasta stjórnin skilst mér að stjórnir sem byggja á þetta miklum yfirburðum séu aldrei heillavænlegar. Þegar yfirburðir stjórnarflokkanna eru svo miklir fer fólk að spila sóló og innan raða Samfylkingarinar má sjá marga kandídata í slíkt. Einnig er ekki hægt að horfa framhjá því að Samfylkingin tapaði töluverðu fylgi frá síðustu kosningum og má draga þá ályktun að það stafi af veikri stöðu flokksins í umhverfismálum.
Íslendingar vilja bersýnilega leggja meiri áherslu á umhverfismál og Sjálfstæðismenn eru alveg til í að halda erninum grænum um sinn. Önnur mál milli D og VG ættu að vera auðleysanleg ef vilji er fyrir hendi. Þetta gæti orðið spennandi stjórn með töluvert nútímalegra fas en sú sem frá er að fara.
Annars er ekkert gefið í þessum málum og nú fara í hönd spennandi tímar þar sem mikið verður plottað og planað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2007 | 14:12
Opið Bréf Til Ungra Sjálfstæðismanna
Mig langar að greina ykkur (aftur) frá því hvert atkvæðið mitt fellur í þessum kosningum. Þrátt fyrir að ég sé sannfærður um að frjálshyggjustefnan sem sumir ykkar boða í Sjálfstæðisflokknum sé sú eina rétta fyrir samfélagið, ætla ég ekki að kjósa ykkur að þessu sinni. Ástæðurnar fyrir því eru eftirfarandi;
1. Sovésk Stóriðjustefna flokksins sem er fullkomlega á skjön við allt sem flokkast gæti undir frjálshyggju og með ólíkindum að ungir menn innan ykkar raða skuli skrifa uppá hana.
2. Íraksstríðið og stuðningur flokksins við þær ólöglegu og ömurlegu aðgerðir.
3. Fyrirhuguð áframhaldandi stóriðjustefna flokksins þar sem augljóslega á að virkja hverja sprænu sem rennur hér (Þegar formenn stjórnarflokkana eru spurðir útí málið babla þeir eitthvað um að nauðsynlegt sé að ná þjóðarsátt um þetta mál.. Hvað þýðir það?? Að þeir ætli að sannfæra þjóðina um að það sé rétt að halda áfram að virkja og virkja??).
4. Valdaþreyta og valdahroki sem einkennir núverandi stjórnarflokka sem sést best á Jónínu málinu og hvernig hún bregst við fullkomlega eðlilegum fréttaflutningi kastljós á hennar málum.
Gefum okkur það að það sé rétt sem þið hafið hamrað á í þessari baráttu, að enginn geti stjórnað þessu landi nema þið og að allt fari til andskotans ef einhverjir aðrir flokkar reyni fyrir sér í þeim málum, ef við kaupum þau langsóttu rök að enginn kunni að reikna nema Árni Matt, þá held ég samt að það sé öllum til góðs að láta á það reyna að breyta aðeins til.
Þjóðinni til góðs vegna náttúrunnar og lýðræðisins og ykkur Sjálfstæðismönnum til góðs vegna afegaleiddrar stefnu ykkar og valdaþreytu. Þá hafið þið 4 ár til þess að safna vopnum ykkar aftur og enduskipuleggja flokkinn með skýrari frjálshyggjustefnu.
Ég veit að innst inni eru þið sammála mér, Kjósið því VG í dag ;)
11.5.2007 | 14:56
Vill Ómar R. Valdemarsson Meira??
Framsóknarmaðurinn Ómar R. Valdemarsson virðist ekki vera dauður úr öllum æðum. Þrátt fyrir að hafa verið snúinn ærlega niður af undirrituðum ásamt öðrum góðu fólki, sem var búið að fá nóg af málefnasnauðu einelti hans á saklausu fólki, heyrist tíst frá honum af og til og nú virðist sem Ómar sé sigri hrósandi yfir nýrri auglýsingu sinna manna í Framsókn.
Mér var send þessi auglýsing í gær í e-maili af eigenda auglýsingastofunnar sem hún var gerð á. Ég og sá maður erum ágætis vinir og höfum oft unnið saman. Ég hef ekki baun uppá þennan mann að klaga, topp maður þar á ferð.. Kauðinn í auglýsingunni á augljóslega að vera ég og verð ég nú bara að segja að ég er djúpt snortinn yfir þessari virðingu sem framsókn sýnir mér. Tveir menn hafa verið týndir til sem höfuðóvinir flokksins, annarsvegar Steingrímur J. og hins vegar ég.. Hvernig er ekki hægt að vera skælbrosandi yfir því?
En Ómar virðist taka þessu sem einhverskonar árás á mig, býst við að mér mér sárni hún voðalega og nú hlakkar í kauða. Hann biður fólk að senda sér e-mail ef það geti sagt honum hver viðkomandi einstaklingur í auglýsingunni á að vera. Já, e-mail vegna þess að net-löggan Ómar sá sér ekki fært að hafa komentakerfið sitt opið lengur.
Kannski Ómar fái mail frá öðru fólki sem ekki kann að svara fyrir sig vegna veiks málsstaðar og hefur einnig lokað fyrir koment á síðum sínum, kannski frá Birni Inga eða Sveini Hirti sem eru einsog Ómar sauðtryggir Framsóknarmenn. Annars veistu það Ómar minn að ef þér liggur eitthvað á hjarta, (ég veit að þú lest bloggið mitt) þá máttu komenta hérna í opna net-löggu-lausa kerfinu mínu einsog þér sýnist. Og meðan ég man, þessi kæra sem þú hótaðir mér og staðfestir í fréttablaðinu að væri á leið til mín, fer hún ekkert að koma?? Þú ferð nú varla að hafa þetta á ferilskránni þinni að hafa í innantómum hótunum við fólk??
Veriði sæl!
10.5.2007 | 11:13
Uppljóstrun!
Ég var beðinn um að svara því, í spurningu við færsluna hér að neðan, hvaða flokk ég ætlaði að kjósa í komandi kosningum. Ég hef sagt það áður að ég er óflokksbundinn og að ekkert af flokkunum höfðar 100% til minna skoðana. Aftur á móti hef ég nú gert upp hug minn. Margir myndu kannski segja að ég hafi verið búinn að því fyrir löngu en svo er ekki. Eftir að hafa horft á fjörlegar umræður á Stöð 2 í gær fékk ég staðfestingu á því hverja ég ætla að kjósa.
Að mörgu leiti er valið ekkert sérlega fýsilegt. Frjálslyndir strokuðu sig út með innflytjenda-umræðunni, Samfylkingin með lýðskrumi í fjölda mála, Framsókn með stóriðjuofstæki, ömurlegri kosningabaráttu og ábyrgðarleysi í spillingarmálum og Íslandshreyfingin með ósannfærandi uppstillingu á listum sínum.
Þá eru eftir 2. flokkar. Sjálfstæðisflokkurinn og VG. Að mörgu leiti á ég mest sameiginlegt með stefnu margra innan Sjálfstæðisflokksins. Ég verð meiri og meiri frjálshyggjumaður með hverjum líðandi degi. En Sjálfstæðisflokkurinn er bara ekki mjög sannfærandi sem frjálshyggjuflokkur. Kannski hann hafi litast svona af samstarfi við Framsókn? Kannski togast þarna á ýmiskonar öfl og þar tapar hreinræktuð frjálshyggja oft fyrir íhaldssömum og rykföllnum hugmyndum? Eitt er víst, að frjálshyggjan ræður ekki þegar flokkurinn stendur í stórkostlegum atvinnu-töfralausnum á borð við Álver hér og þar um landið. Ekki hjálpar Sinnuleysið gagnvart því frábæra tækifæri að fá að taka þátt í risa tónleikahaldi sem 2 miljarðar manna yrðu vitni af og íslensk tónlist fengi notið góðs af. Hversvegna skyldu ráðandi öfl ekki hafa stokkuð um borð án þess að hika? Sjálfsagt vegna þess að náttúruverndarboðskapurinn var þeim ekki í hag. Ekki hjálpar til stuðningurinn við Írakstríðið. Ekki hjálpar til nýi skandallinn hans Björns Bjarnasonar. Þetta ásamt því að ég held að það sé einfaldlega nauðsynlegt og holt fyrir land og þjóð að breyta til, er ástæða þess að ég get ekki hugsað mér að kjósa íhaldið.
Í þætti Stöðvar 2. í gær voru leiðtogar flokkana beðnir um að segja hver yrðu fyrstu verk þeirra ef þeir kæmust til valda. Steingrímur J. sagði m.a. að taka Ísland af lista þeirra sem styðja blóðbaðið í Írak, biðjast formlega afsökunar og hefjast handa við aðstoð flóttamanna þaðan. Þessi maður fær atkvæði mitt. Maður sem ásamt fáliðuðum þingflokki hefur staðið umhverfisvaktina einn flokka, áður en það komst í tísku að vera grænn einsog allir flokkar virðast vera orðnir í dag. Ég er ekki alltaf sammála öllu sem hann segir, en þegar ég hef forgangsraðað hlutunum, þá er valið augljóst.
x-v
Veriði sæl!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.5.2007 | 13:40
Er Fólk Fífl!?!
Það lítur út fyrir að framsókn hafi haft rétt fyrir sér í auglýsingaherferð sinni, sem er búin að vera á sögulega lágu plani. Þar hafa þeir lagt net sín út til fábjána, með stafakalla auglýsingum sínum um vonda rauða kallinn og góða græna kallinn. Þetta siðlausa útspil virðist vera að virka því fólk er upp til hópa gleymið, illa gefið og vill mengandi stóriðju, spillingu og sinnuleysi í velferðarmálum áfram. Ekkert stopp!
Nú þurfa allir sem vettlingi geta valdið, hvort sem það er hér á netinu, símanum, vinnustöðum eða annarstaðar, hvort sem þið styðjið Íslandshreyfinguna, VG, Samfylkinguna eða Sjálfstæðisflokkinn að taka höndum saman og hamra því inní fólk sem hugsanlega gætu gert þau afglöp að kjósa yfir sig meiri Framsóknar-spillingu og Sovéska stóriðju að láta það eiga sig, kjósa heldur ALLT ANNAÐ! HVAÐ SEM ER!!
Veriði sæl!
Fylgi Framsóknarflokksins tekur stökk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
8.5.2007 | 16:52
Hvað Gerir Björn Ingi?
Ég er búinn að vera að slugsa í dag, hanga of mikið á netinu og fylgjast með kosninga umræðunum í stað þess að vinna. Það er betra að surfa í vinnunni en þegar maður er heima, því dóttur minni og konu finnast ég lítið skemmtilegur þegar ég hangi í tölvunni á kvöldin. Undanfarna daga hef ég náð að afkasta töluverðu en þá hef ég líka verið í blogg-bindindi. Þetta er aftur á móti blogg mitt nr. 2 i dag..
Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig afkastamestu bloggararnir fara að því að blogga svona margar færslur á dag. Sumir þeirra eru kannski í engri vinnu? veikir heima? í mjög rólegri vinnu eða á amfetamín-sterum..?
Einn afkastamesti bloggarinn hérna á mbl situr í borgarstjórn. Frá honum koma margar færslur á dag. annað hvort er Bingi með mann í vinnu hjá sér við að blogga, mann í vinnu hjá sér við að vinna vinnuna sína eða á amfetamín-sterum.
Nema að það sé bara ekki rassgat að gera hjá Binga??
Hvað haldið þið?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.5.2007 | 13:31
Sovéskir Sjálfstæðismenn
Merkilegt að lesa pistla sjálfumglaðra Sjálfstæðismann þessa dagana. Var að lesa hér einn þar sem því er haldið fram að uppgangur sprotafyrirtækja sé Íhaldinu að þakka.
Nú vill þannig til að ég hef fylgst afar vel með uppgangi fyrirtækisins CCP. Ég vann fyrir þá verkefni fyrir 4 árum, rétt um það leitið þegar að EVE ONLINE var að koma á markað. Á þessum tíma rambaði fyrirtækið á barmi gjaldþrots. Enginn utan CCP hafði sérstaka trú á því að þetta yrði eitthvað merkilegt, fæstir skildu hvað CCP voru að gera og flestum var alveg sama. Reynt var að ná í salt í grautinn hjá hinum ýmsu sjóðum ríkisins á meðan komist væri yfir erfiðasta hjallann. Allt voru það árangurslausar tilraunir. Ríkið sá ekkert merkilegt við fyrirtæki sem var að framleiða tölvuleik. Þegar svo leikurinn fór á markað erlendis sveiflaðist krónan upp og niður, sem gerði fyrirtækinu óbærilegt að gera út héðan frá Íslandi. Það er ekki Íhaldinu að þakka að aðalbækistöðvar fyrirtækisins, sem skilaði á síðasta ári miljarði í hagnað, eru ennþá á íslandi.
Nánast sömu sögu má segja um Latabæ. Latibær hefur ekki fengið krónu í styrk frá Ríkinu. Það fyrirtæki hefur nú oftar en einu sinni verið á sama stað og CCP var. Menn höfðu jafnvel ennþá minni trú á að það gæti orðið eitthvað. Latibær lenti í sömu vandræðum með óstöðugleika krónunnar og CCP.
Þess vegna er óhætt að segja að þessum fyrirtækjum hefur tekist hið ómögulega, ÞRÁTT fyrir ríkisstjórn Íhaldsins! Ég fæ óbragð í munninn þegar Sjálfstæðismenn telja uppgang þessara fyrirtækja vera sér að þakka.
Ég á fyrirtæki sjálfur sem er í útrás. Hugmyndin er góð, hefur verið testuð hér við góðan árangur, efnið er einstakt og hefur hlotið góðan hljómgrunn hvar sem við höfum kynnt það. En í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur það verið gersamlega ógerlegt að fá svo mikið sem eina krónu frá ríkinu í styrk, sama í hvaða sjóð er leitað. Frumskógurinn er endalaus og reglurnar svo kassalaga að ekkert óvenjulegt hlýtur náð fyrir augum ríkisins. Reynt hefur verið að fá fund með menntamálaráðherra án árangurs. Tekið skal fram að ég vinn við sömu iðn og Hrafn Gunnlaugsson. Skyldi það hafa verið vesen fyrir hann að fá fund með Þorgerði Katrínu þegar hann bjó til hina tímalausu snilld Skýrslumálastofnun eða hvað það var sem hún hét?
Í pistlinum sem ég linkaði í hér að ofan segir "Sprotafyrirtækin hafa vaxið í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur trúað því að fólkinu sé best treystandi að efla atvinnulífið, en ekki stjórnmálaflokkunum."
Þetta er sérstakt komment komandi frá flokki sem stendur í stórkostlegum atvinnu-töfralausnum í formi virkjanna og álvera..
Staðreyndin er einfaldlega sú að Sjálfstæðismenn eru Sovéskari en gömlu Sovétríkin.