Færsluflokkur: Spil og leikir

Fordómafullur Fyrirliði

Ég hef verið að taka eftir sífellt opinskárri umræðu um "helvítis útlendingana" sem æða hingað til okkar óspillta lands til þess að nauðga og lemja á saklausu og hreinu samborgurum okkar.

Ég kippi mér svosem ekki mikið upp við það að heyra í bitrum og óttaslegnum andlegum öryrkjum sem tjá óumbeðið sínar misvitru skoðanir um þessi mál í símatímum útvarps Sögu. Reyndar hljómar sú stöð dálítið einsog að Tvíhöfði ráði þar ríkjum, slík er stundum geðveikin. Maður býst við því að heyra þessháttar vitleysu og fordóma á Sögu en mér hefur brugðið nokkrum sinnum undanfarið við að heyra fordómana koma frá meiri mainstream stöðum. 

Ekki alls fyrir löngu heyrði ég einhverja dagskrárgerðarstúlku vera að pirrast útí útlendinga á útvarpsstöðinni FM957. Sá sem stjórnaði þættinum með henni var ekkert að benda henni á hversu forheimskulega hún hljómaði og hún fékk að tala sig út um sín ömurlegu viðhorf til útlendinga. 

Í gær sá ég ör-viðtal við fyrirliða Íslandsmeistara Vals í knattspyrnu sem ég kann ekki nafnið á. Sá hafði áhyggjur af þeirri þróun að hingað streymdi ofbeldisfullur óþjóðalýður frá óæðri löndum og stæli hér öllu steini léttara. Vildi hann meina að þeir frambjóðendur Frjálslyndra sem vöruðu okkur við þróun mála fyrir kosningar síðasta vor hafi sannarlega haft sitthvað til síns máls. Spurning um hvernig erlendu liðsfélagar fyrirliðans tóku í þessi ummæli. Kannski átti fyrirliðinn við annarskonar útlendinga en þá sem koma til þess að hjálpa honum að sigra íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu? 

Lengi vel trúði maður því í blindni að á Íslandi fyndist lítið af fordómum í garð útlendinga en nú þegar fyrst á reynir, eftir að við höfum þurft að reiða okkur á erlent vinnuafl vegna stórframkvæmda hér á landi, kemur annað í ljós. Ljóst er að á Íslandi þrífst nóg af illa upplýstu eða illa gefnu fólki til þess að  fara fyrir fordómum á borð við þessa. 

Ég verð að viðurkenna að þegar fyrirliði í sigursælu íþróttaliði, sem á sér sjálfsagt marga unga áhangendur, lætur út úr sér koment sem afhjúpar fordóma á borð við þetta, að þá er mér töluvert brugðið. Einnig bregður mér að heyra svona talað á vinsælustu útvarpstöð unga fólksins. Greinilegt er með þessu að æ fleiri eru að koma útúr skápnum með rasisma sinn og að við erum síður en svo skárri en aðrar þjóðir sem við höfum hneykslast á gegnum tíðina hvað þessi mál varðar.

Ég sá óborganlegt atriði í hinum frábæru þáttum Næturvaktinni fyrir stuttu þar sem Georg Bjarnfreðarson í frábærri túlkun Jóns Gnarr gerist uppvís af ekta íslenskum rasisma. Þar fannst mér takast mjög vel til við að opinbera hverskonar blábjánar við getum verið í þessum malum. 

 

Útúrgóðar stundir. 


Silfur Egils

Horfði á hressilegar umræður í Silfrinu fyrr í dag. í uppgjöri vikunar sátu fulltrúar fjögurra stærstu flokkanna ásamt Agli, sem vildi meina að þessi kosningabarátta væri leiðinleg.. Ég get ekki tekið undir það. Mér finnast þetta gríðarlega spennandi kosningar. Að vissu leiti er það rétt að hún hefur svolítið snúist um skoðanakannanir sem birtast nokkrar á dag og sveiflast töluvert, en maður finnur samt sem áður fyrir gríðarlegum taugatitringi meðal frambjóðenda allra flokka. Hér á blogginu er hnakkrifist og oft heldur ómálefnalega, líkt og stuðningsmenn fótboltaliða gera svo gjarnan.

Það hefði nú verið mun heppilegra ef Egill hefði haft Jón Baldvin í þessum þætti frekar en fyrir viku í ljósi þessa spillingamáls sem upp er komið þar sem Jón er nú sérfróður um spillingu. Hann hefði getað rakið fyrir okkur mál einsog skinku-töskuna sem hann flutti inn á sínum tíma, brennívínsboðið hennar Bryndísar sem þjóðin borgaði auk þess sem hann hefði getað upplýst þjóðina um sitthvað nýtt sem hann hefur haft fyrir stafni, sem svo margir vita af en enginn þorir að nefna.

En aftur að þættinum. Valgerður háði tapaða baráttu með því að reyna að afmá spillingarfýluna af flokki sínum. Kannski er það rétt hjá Framsókn, að þjóðin sé heimsk, en svona heimsk er hún ekki. Í kjölfar þess að restin af viðmælendunum jánkuðu því að þetta mál þyrfti að ransaka ofaní kjölinn, nötraði Vala af bræði og náði sér aldrei á strik. Guðlaugur var ágætur en Ömmi hefur verið betri.

Sá sem mér fannst bera af í þættinum aftur á móti var Össur. Aldrei bjóst ég nú við því að segja þetta þar sem ég get nú varla talist til mikilla aðdáenda hans flokks, en hann naut sín afar vel í dag og raunar hefur það verið áberandi hvað Össur hefur verið að sækja í sig veðrið uppá síðkastið. Kannski er það vegna þess að Davíð er horfinn af leikvellinum? Davíð hafði einstakt tak á Össuri ásamt svo mörgum örðum og tókst honum ósjaldan að láta Össur líta út einsog kjána. Nú er hann aftur á móti farinn og það er einsog Össur sé allt annar maður. 

Annað sem mér fannst áberandi, var hve vel fór á með þeim Ögmundi og Össuri. Það vantaði bara að þeir blikkuðu hvorn annan og gæfu hvorum öðrum high five af og til. Þeir sjá þá vonarglætu að saman takist þeim að fella stjórnina, og til þess að svo megi verða, verði þeir að hætta að berjast sín á milli. En hvernig ætlar þeim að takast þetta á þeim 2. vikum sem eftir er af baráttunni?

Ef ég sæti í nefnd sem tæki þetta mál upp myndi ég leggja fram eftirfarandi;

Nú þarf að láta af eineltinu á hendur Framsókn. Þeir eru fullfærir um að leggja sjálfa sig í einelti með misheppnaðri kosningabaráttu, spillingarmálum og steinaldarstóiðjustefnu. Auk þess halda þeir stífum fókus, á öllum sínu klúðri, hér á internetinu og því er óþarfi halda þeim málum á lofti, þeir gera það sjálfir. Einsog ég sagði, framsókn leggja sjálfa sig í einelti og eru á góðri leið með að fá flokkinn niður fyrir fylgi frjálslyndra.  Nú þarf að vaða í risann ógurlega. Hann hefur setið til hliðar fullkomlega óáreittur. Þeir þurfa varla að auglýsa neitt, samt mælist flokkurinn á flestum stöðum í svipuðu fylgi og í síðustu kosningum?? Þrátt fyrir Írak!!?? Þrátt fyrir Kárahnjúka og allan þann hildarleik sem þar hefur átt sér stað!!?? Þrátt fyrir ójöfnuðinn sem sífellt vex og vex!!?? Er Árni Johnsen virkilega á leiðinni á þing aftur??

Þett yrðu mínar tillögur ef ég sæti í nefnd um hvernig fella ætti ríkisstjórnina. 

 

Ég hef sagt það áður og segi það aftur, ég er óflokksbundinn áhugamaður um pólitík Smile

 

Veriði sæl! 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband