17.6.2007 | 14:53
Íslensk Tónlist
Við foreldrarnir fórum í 30 ára afmæli vinar okkar í gærkvöldi og skildum Heklu eftir í umsjá ömmu og afa. Hún var hreint ekki á því að leyfa okkur að fara og mótmælti hástöfum.. í tæpa 2 klukkutíma! Ekki veit ég hvaðan hún hefur þessa þrjósku stúlkan. En við fórum nú engu að síður og skemmtum okkur mjög vel í veislunni sem haldin var á barnum sem liggur fyrir neðan hegningarhúsið. Fólk fékk þar að drekka allar sortir fríkeypis, nema ég, sem þurfti að borga fyrir sódastreamið.. Dálítið sérstakt.
Þetta var voðalega sæt veisla, ekkert of margir gestir en þeim mun vandaðari, s.s. fáment en góðment. Það sem stóð þó uppúr veislunni voru 2 hljómsveitir sem tróðu upp til heiðurs afmælisbarninu. Sú fyrri heitir Reykjavík Ég varð fyrir innblástri við að horfa á.. þvílík spilagleði, þvílíkt rokk, þvílík veisla! Ekki nóg með að lagasmíðar þeirra virtust vel yfir meðallagi góðar fyrir rokkhljómsveitir, heldur var sviðsframkoma þeirra mögnuð. Ég endurtek, ég varð fyrir innblástri! Reykjavík í Eurovision!
Á eftir þeim kom svo hljómsveitin FM Belfast. Ég hafði ekki séð þá hressu krakka á tónleikum áður, ekki frekar en Reykjavík. Skemst er frá því að segja að FM Belfast voru stórkostleg. Mátulega kærulaust tölvupoppið sem flytjendur höfðu greinilega unun af að færa áhorfendum veitti mér gæsahúð oftar en einu sinni þetta kvöld. Sérstaklega þá óvenjulegt cover þeirra af gamla RATM laginu, killing in the name of. Alveg frábært stuff! FM Belfast í Eurovision!
Greinilegt er að tónlistin lifir góðu lífi á íslandi í dag og það gleður mitt gamla pönk hjarta!
Veriði sæl!
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Bloggar, Matur og drykkur, Tónlist, Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.