Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Missum Okkur!

Ég verð að viðurkenna það að ég skil þetta mál ekki alveg.. Ég las þessa færslu frá Gills fyrir nokkrum dögum og gat ekki séð neina hótum um ofbeldi í pistlinum. Það sem ég las var að Egill ásamt svo mörgum ungum mönnum og konum hefur fengið uppí kok af rétttrúnaðar femínisma sem gerir ekkert nema veikja málstað þeirra femínista sem raunverulega vilja breyta því sem betur má fara. Í pistlinum dró Egill þá ályktun að ákveðnir femínistar þyrftu líklega bara að fá að njóta almennilegs kynlífs. Hvað svo sem fólki finnst um þessa ályktun að þá er hún í fullkomnu samræmi við lífsviðhorf Gills. Sumir þessara femínista vildi Gills meina að væru svo illa haldnir að það dygði ekkert minna en nokkra vel vaxna menn til að ná úr þeim pirringnum. Ekki var þó tekið fram hvernig ástar-meðferð Gills færi fram, hvort þessir vel völdu folar ættu að fjölmenna á þessar konur, eða hvort þeir ættu að heimsækja þær einn í einu yfir ákveðinn tíma á meðan á meðferð stæði. 

Fréttaflutningur mbl hefur sjálfsagt ekki dregið úr viðbrögðunum hér. Ekki veit ég hvernig fréttamaður mbl komst að þeirri niðurstöðu að um hótun um kynferðisofbeldi væri að ræða? Kannski að einhver doktor í kynjafræði hafi afkóðað pistilinn fyrir blaðamanninn? Annars langaði mig að velta hér upp tveimur spurningum varðandi þetta mál.

Í fyrsta lagi; Mega bara sumir beita gálgahúmor (einsog t.d. Hugleikur eða Megas) og má þá sá gálgahúmor bara beinast gegn ákveðnum þjóðfélagshópum en ekki öðrum?

og í öðru lagi; Þegar talað er um kynlíf eða ástarleiki og femínista í sömu setningu, er þá alltaf átt við kynferðisofbeldi? Hafa femínistar einir rétt á því að upplifa öll boð um ástaratlot sem hótun um nauðgun? Upplifir þetta enginn sem móðgun við raunveruleg fórnarlömb nauðgana?

 

Góðar Stundir 

 


mbl.is Gillzenegger tók bloggfærslu út fyrir mömmu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fordómafullur Fyrirliði

Ég hef verið að taka eftir sífellt opinskárri umræðu um "helvítis útlendingana" sem æða hingað til okkar óspillta lands til þess að nauðga og lemja á saklausu og hreinu samborgurum okkar.

Ég kippi mér svosem ekki mikið upp við það að heyra í bitrum og óttaslegnum andlegum öryrkjum sem tjá óumbeðið sínar misvitru skoðanir um þessi mál í símatímum útvarps Sögu. Reyndar hljómar sú stöð dálítið einsog að Tvíhöfði ráði þar ríkjum, slík er stundum geðveikin. Maður býst við því að heyra þessháttar vitleysu og fordóma á Sögu en mér hefur brugðið nokkrum sinnum undanfarið við að heyra fordómana koma frá meiri mainstream stöðum. 

Ekki alls fyrir löngu heyrði ég einhverja dagskrárgerðarstúlku vera að pirrast útí útlendinga á útvarpsstöðinni FM957. Sá sem stjórnaði þættinum með henni var ekkert að benda henni á hversu forheimskulega hún hljómaði og hún fékk að tala sig út um sín ömurlegu viðhorf til útlendinga. 

Í gær sá ég ör-viðtal við fyrirliða Íslandsmeistara Vals í knattspyrnu sem ég kann ekki nafnið á. Sá hafði áhyggjur af þeirri þróun að hingað streymdi ofbeldisfullur óþjóðalýður frá óæðri löndum og stæli hér öllu steini léttara. Vildi hann meina að þeir frambjóðendur Frjálslyndra sem vöruðu okkur við þróun mála fyrir kosningar síðasta vor hafi sannarlega haft sitthvað til síns máls. Spurning um hvernig erlendu liðsfélagar fyrirliðans tóku í þessi ummæli. Kannski átti fyrirliðinn við annarskonar útlendinga en þá sem koma til þess að hjálpa honum að sigra íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu? 

Lengi vel trúði maður því í blindni að á Íslandi fyndist lítið af fordómum í garð útlendinga en nú þegar fyrst á reynir, eftir að við höfum þurft að reiða okkur á erlent vinnuafl vegna stórframkvæmda hér á landi, kemur annað í ljós. Ljóst er að á Íslandi þrífst nóg af illa upplýstu eða illa gefnu fólki til þess að  fara fyrir fordómum á borð við þessa. 

Ég verð að viðurkenna að þegar fyrirliði í sigursælu íþróttaliði, sem á sér sjálfsagt marga unga áhangendur, lætur út úr sér koment sem afhjúpar fordóma á borð við þetta, að þá er mér töluvert brugðið. Einnig bregður mér að heyra svona talað á vinsælustu útvarpstöð unga fólksins. Greinilegt er með þessu að æ fleiri eru að koma útúr skápnum með rasisma sinn og að við erum síður en svo skárri en aðrar þjóðir sem við höfum hneykslast á gegnum tíðina hvað þessi mál varðar.

Ég sá óborganlegt atriði í hinum frábæru þáttum Næturvaktinni fyrir stuttu þar sem Georg Bjarnfreðarson í frábærri túlkun Jóns Gnarr gerist uppvís af ekta íslenskum rasisma. Þar fannst mér takast mjög vel til við að opinbera hverskonar blábjánar við getum verið í þessum malum. 

 

Útúrgóðar stundir. 


Móðursjúka Þjóð

Hér sýnist mér stefna í enn eitt móðursýkiskastið hjá þjóðinni. Ætli öllum eintökum af Djöflaeyjunni verði ekki safnað saman og efnt til blaðabrennu niðrá Austurvelli? Þvínæst verður skipuð nefnd með valinkunnum forræðishyggju snillingum og farið yfir allan skrifaðan texta, hvort sem hann er í formi bóka, ljóða eða söngtexta, eða fyrir útvarp, sjónvarp og bíómyndir. Leitað verður sérstaklega eftir verkum þar sem skrifað hefur verið um fatlaða,  geðveika, þroskahefta og um "viðkvæm" mál einsog klám, fíkniefni, ofbeldi, samkynhneigð. Verður þessum verkum öllum safnað saman og haldin allsherjar brenna á laugardalsvelli þar sem kynnt verða ný lög sem banna allt grín nema að það geti alls ekki misskilist og fjalli eingöngu um fyndna hluti eins og feita kalla sem detta á rassinn og rjómakökuköst. 

Það sem ég hef séð birt úr þessari grein í djöflaeyjunni er svo augljóst háð að fólk þyrfti að vera alvarlega greindarskert til þess að halda að hér væri einhverskonar leiðarvísir fyrir neytendur fíkniefna. En það virðist sem að það séu alltaf til einhverjir móðursjúkir móðgunarfíklar sem rjúka upp til handa og fóta um leið og blygðunarkennd þeirra er misboðið. Greinin finnst mér ekki síst vera skot á hversu illa við erum stödd í forvarnarmálum. Mín skoðun er sú að það þurfi að ákveða hvort skuli gera, leyfa neyslu fíkniefna hér á landi eða fara í almennilega baráttu gegn þeim. Ljóst er að núverandi ástand er ómögulegt. En það er nú efni í annan pistil. 

Veriði Sæl! 


mbl.is Fíkniefnaleiðarvísir birtur í fríblaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áríðandi Tilkynning Frá Lúkas!

Mikið hlýtur að vera gaman hjá æðri máttarvöldum þessa daga eftir að þau frumsýndu verkið skemmtilega um ógæfuhundinn Lúkas á litla sviðinu í norðurhafi. Æðri máttarvöld meiga líka vera hamingjusöm með árangurinn, því verkið vakti mikla athygli fyrir rammsúrealíska þjóðfélagsádeilu.
Annars setti ég mig í samband við hundamiðil sem sérhæfir sig í lifandi hundum sem taldir eru af og náðum við sambandi við döðluhundinn lúkas. Hann vildi koma eftirfarandi skilaboðum áleiðis til fyrrverandi eigenda sinna:
Kæra mannfólk! Ég kæri mig ekki um að fara til hundarakara! Ég kæri mig ekki heldur um að fara í ljós né vera með eyrnalokka, hálsmen eða annað asnalegt og ókarlmannlegt glingur. Ég kæri mig ekki um að vera í þessum asnalegu fötum sem þið klæðið mig í. Ég kæri mig ekki um að vera meðhöndlaður sem barbídúkka. Ég er hundur! Voff! Comprende? Og að lokum, þá kæri ég mig ekki um að vera kallaður Lúkas!
Vegna alls þessa, þá átti ég engra annara kosta völ en að strjúka og ég bið ykkur vinsamlegast að láta það eiga sig að vera að reyna að ná í mig.

ps; Notiði getnaðarvarnir!

Í alvörunni!

Veriði sæl!


Fjölmiðla-Sifjaspell

það er orðið langt síðan ég skrifaði hér síðast. Ég hef verið að velta því fyrir mér um hvað maður ætti að skrifa hérna eftir að kosningunum lauk því ég nenni ekki að standa í röfli um stjórnmál svona stuttu eftir kosningar. Heldur vil ég óska nýjum og eldri ráðherrum til hamingju með embættin og vona innilega að þeim takist að bæta hag okkar allra og að þeir verði okkur til sóma næstu 4 ár. 

Ég held að ég noti frekar þessa síðu til þess að blása út af og til um þjóðfélagsmál almens eðlis, án þess þó að ég búist við því að verða mjög afkastamikill á því sviði. 

Ég hef áður skrifað þá skoðun mína hér á blogginu að líklega hafi Davíð Oddsson haft töluvert til síns máls með fjölmiðlafrumvarpi sínu. Þetta sér maður æ oftar og virðist 365 samsteypan vera hægt og rólega að breytast í risavaxið skrímsli. Í dag sá maður foringjahollustuna leka af fréttablaðinu í umfjöllun sinni um mál Egils Helgasonar. Ég hef lauslega fylgst með málinu og ætla ekki að taka afstöðu til málsins hérna, þ.e. hver er að skrökva og hver ekki en mér fannst vægast sagt aumt að sjá pillurnar sem blaðið skrifaði um málið í dag.

Það hefur hallað verulega á 365 í þessu máli og nú á greinilega að nýta sér völdin til þess að breyta umfjölluninni. Samkvæmt blaðamanni voru þættir hins svikula Egils tóm þjáning á að horfa, Egill gat aldrei horft í rétta cameru, hikaði og stamaði í sífellu og ég veit ekki hvað og hvað.. Síðasta pillan er svo á þá leið að  nú þegar Egill er farinn, geti Stöð 2 loksins gert almennilegan umræðuþátt um pólitík. Þar er nefndur Heimir Már sem kandídat í að rúlla yfir þessar vandræðalegu tilraunir Egils til að halda uppi umræðuþætti. hmm..? Þessi ágæti penni sem skrifaði þessar pillur hefur greinilega átt mjög erfiða helgi.

Mikið rosalega er þetta aumkunarvert að ráðast svona á fyrrverandi samstarfsmann sinn. Jafnvel Þó að Egill hefði hegðað sér illa, gert vonda þætti, svikið allt og alla og brotið allt og bramlað, þá lætur fullorðið fólk ekki svona. Þetta er augljóslega hættan sem stafar af því að starfa á fjölmiðli sem á fullt af öðrum fjölmiðla systkinum. Má því segja að þegar að fjölmiðla systkinin hópa sér svona saman að hálfgert fjölmiðla-sifjaspell eigi sér stað.  

365 eru einfaldlega tapsárir yfir því að hafa misst yfirburðar mann til RÚV og vita mætavel að hvorki Heimir Már né aðrir fréttamenn stöðvar 2 eiga lítinn séns í að færa okkur jafn lifandi umræðu um pólitík og Egill hefur gert undanfarin misseri. Betra væri þó fyrir ásjónu fyrirtækisins að láta það eiga sig að hreyta ónotum í Egil, hvort sem það er gert á vísi.is, Bylgjunni, Stöð 2 eða Fréttablaðinu. 

Veriði sæl 

 


Mánudagur

Ekki er laust við að það beri á andlegum timburmönnum eftir átök undanfarinna vikna hérna á blogginu. Nú þegar kosningum er lokið finnst mér alveg tilgangslaust að vera að tjá mig eitthvað um stöðu mála í stjórnamyndunum eða hver fær hugsanlega hvaða ráðuneyti. Nú er staðan sú að kjörnir fulltrúar gera það sem þeim sýnist alveg óháð því hvað mér finnst um það, því má líkja því við að freta útí vindinn að vera að tjá sig eitthvað um það hér. En hvað í ósköpunum á ég þá að skrifa um hérna? Spurning um að taka Ellý á þetta, gera svona sex in the city fyrir karlmenn? Prófum það.. 

"Var hún virkilega til í það?" Spurði ég og beit í sveittan vitaborgarann. "Já maður, alveg flippað sko.." Sagði vinur minn með sólheimaglott á vör. "Og hvað? Spurði ég og missti kokteilsósu niðrá buxurnar "Ég bara lét vaða maður, tók hana bara á orðinu" hélt vinur minn áfram sem ávalt virtist vera lenda í einhverskonar ævintýrum á borð við þetta "Ég skellti henni bara á bakið, klæddi mig í kafarabúninginn, náði í rækjusalatið, dúkahnífinn og kúbeinið, henti faxtækinu í samband og..

hmm.. þetta er kannski ekki alveg málið.. 

Ég nenni hreint ekki að skrifa meira um Ómar, það fer bara sína leið, þó virðist komentakerfið í færslunni hér fyrir neðan vera orðið einhverskonar skrímsli. Einhverjir óvildarmenn Ómars ásamt einhverjum vinum hans sjálfs (eða kannski bara hann sjálfur) að skrifast á undir mismiklum dulnefnum  um kosti og galla þess að vera Ómar. Gaman að fylgjast með því öllu.. Fannst reyndar svolítið spaugilegt koment frá einhverjum óskráðum Baldri sem sagði að ég augljóslega sæi eftir þessu öllu núna.. Veit ekki hvernig  sá maður fékk þá niðurstöðu, nema ef vera skyldi  að viðkomandi sé ólæs á hæðni.

Þannig að ég veit hreinlega ekkert hvað ég á að skrifa hérna lengur. Ætli það sé ekki best að leggja höfuðið í bleyti og ákveða hvort eitthvað framhald verði á þessu eða hvort að maður fari að segja þetta gott.. Ég ætla að hugsa málið.

Veriði sæl! 


Er Ég Sá Fyrsti Til Að Vera Kærður Fyrir Blog?

Mig langar óskaplega að vita hvort þið vitið til þess að einhver hafi áður verið kærður fyrir blog á Íslandi? Ekki man ég til þess.. Látið mig endilega vita ef þið munið eftir einhverju álíka.
Ef ég yrði svo dæmdur sekur, þá yrði nóg að gera hjá hæstarétti næstu 50 árin, krakkar að kæra hvora aðra fyrir að kalla sig homma á irkinu, svo ekki sé nú minnst á þá fengitíð sem Ómar sjálfur yrði kominn í, þá fengi sko það fólk sem gert hefur gys af upplýsingafulltrúanum hérna á netinu heldur betur á baukinn. Svo minnist ég þess að hafa verið kallaður skíthæll einhverstaðar hjá einhverjum.. fer í að finna það, það gætu orðið einhverjar millur í skaðabætur, enda var andlegt áfall mitt við það töluvert.
Annars hef ég aldrei farið fyrir rétt áður eða verið leiddur fyrir dómara. Ég verð nú að segja að ég er töluvert spenntur yfir þessu. Ómar þekkir þetta sjálfsagt betur en ég, enda bjó hann í USA og hefur sjálfsagt lært þetta samskiptaform þar, eða kannski að hann hafi horft yfir sig á Matlock á yngri árum..?
Ég er að hugsa um að gera þér tilboð Ómar. Þú lætur málið niður falla, sparar þér tíma og pening og borgar mér 500.000 kall. Ef þú hugsar málið, þá er þetta fjári gott tilboð! Taktu þér tíma í að spá í þetta, have your people call my people..

Veriði sæl!


Kæran Er Komin!

Jæja jæja.. Loks kom kæran frá Ómari R. Valdimarssyni sem ég er búinn að bíða svo lengi eftir. Ég sé framá að við fjölskyldan verðum að selja íbúðina og flytja úr vesturbænum sökum þrjósku minnar við að neita að taka ummæli mín um að Ómar væri rasisti niður af bloggsíðu minni. Hann fer framá 2. miljónir í skaðabætur (segir þetta hafa fengið mjög mikið andlega á sig, auk þess sem að hann hafi beðið álitshnekki). Svo vill hann 800.000 til þess að birta dómúrskurð í 3mur dagblöðum, svo þarf ég að ráða mér lögfræðing sem þarf auðvitað að borga.. þetta er alveg agalegt! Ég er stara framaní gjaldþrot hérna!!
Eða þannig..
En ég ætla að leggja hérna fyrir ykkur vini mína litla getraun, hvaða lögfræðingur haldið þið að hafi skrifað uppá stefnuna?? Sá sem getur rétt fær tóma aðdáun mína að launum.

Ekki vissi ég að Ómar þyrfti neina utanaðkomandi hjálp við að bíða álitshnekki..


Opið Bréf Til Ungra Sjálfstæðismanna

Mig langar að greina ykkur (aftur) frá því hvert atkvæðið mitt fellur í þessum kosningum. Þrátt fyrir að ég sé sannfærður um að frjálshyggjustefnan sem sumir ykkar boða í Sjálfstæðisflokknum sé sú eina rétta fyrir samfélagið, ætla ég ekki að kjósa ykkur að þessu sinni. Ástæðurnar fyrir því eru eftirfarandi;

1. Sovésk Stóriðjustefna flokksins sem er fullkomlega á skjön við allt sem flokkast gæti undir frjálshyggju og með ólíkindum að ungir menn innan ykkar raða skuli skrifa uppá hana.

2. Íraksstríðið og stuðningur flokksins við þær ólöglegu og ömurlegu aðgerðir.

3. Fyrirhuguð áframhaldandi stóriðjustefna flokksins þar sem augljóslega á að virkja hverja sprænu sem rennur hér (Þegar formenn stjórnarflokkana eru spurðir útí málið babla þeir eitthvað um að nauðsynlegt sé að ná þjóðarsátt um þetta mál.. Hvað þýðir það?? Að þeir ætli að sannfæra þjóðina um að það sé rétt að halda áfram að virkja og virkja??).

4. Valdaþreyta og valdahroki sem einkennir núverandi stjórnarflokka sem sést best á Jónínu málinu og hvernig hún bregst við fullkomlega eðlilegum fréttaflutningi kastljós á hennar málum.

Gefum okkur það að það sé rétt sem þið hafið hamrað á í þessari baráttu, að enginn geti stjórnað þessu landi nema þið og að allt fari til andskotans ef einhverjir aðrir flokkar reyni fyrir sér í þeim málum, ef við kaupum þau langsóttu rök að enginn kunni að reikna nema Árni Matt, þá held ég samt að það sé öllum til góðs að láta á það reyna að breyta aðeins til.
Þjóðinni til góðs vegna náttúrunnar og lýðræðisins og ykkur Sjálfstæðismönnum til góðs vegna afegaleiddrar stefnu ykkar og valdaþreytu. Þá hafið þið 4 ár til þess að safna vopnum ykkar aftur og enduskipuleggja flokkinn með skýrari frjálshyggjustefnu.
Ég veit að innst inni eru þið sammála mér, Kjósið því VG í dag ;)


Vill Ómar R. Valdemarsson Meira??

Framsóknarmaðurinn Ómar R. Valdemarsson virðist ekki vera dauður úr öllum æðum. Þrátt fyrir að hafa verið snúinn ærlega niður af undirrituðum ásamt öðrum góðu fólki, sem var búið að fá nóg af málefnasnauðu einelti hans á saklausu fólki, heyrist tíst frá honum af og til og nú virðist sem Ómar sé sigri hrósandi yfir nýrri auglýsingu sinna manna í Framsókn. 

Mér var send þessi auglýsing í gær í e-maili af eigenda auglýsingastofunnar sem hún var gerð á. Ég og sá maður erum ágætis vinir og höfum oft unnið saman. Ég hef ekki baun uppá þennan mann að klaga, topp maður þar á ferð..  Kauðinn í auglýsingunni á augljóslega að vera ég og verð ég nú bara að segja að ég er djúpt snortinn yfir þessari virðingu sem framsókn sýnir mér. Tveir menn hafa verið týndir til sem höfuðóvinir flokksins, annarsvegar Steingrímur J. og hins vegar ég.. Hvernig er ekki hægt að vera skælbrosandi yfir því? 

En Ómar virðist taka þessu sem einhverskonar árás á mig, býst við að mér mér sárni hún voðalega og nú hlakkar í kauða. Hann biður fólk að senda sér e-mail ef það geti sagt honum hver viðkomandi einstaklingur í auglýsingunni á að vera. Já, e-mail vegna þess að net-löggan Ómar sá sér ekki fært að hafa komentakerfið sitt opið lengur.

Kannski Ómar fái mail frá öðru fólki sem ekki kann að svara fyrir sig vegna veiks málsstaðar og hefur einnig lokað fyrir koment á síðum sínum, kannski frá Birni Inga eða Sveini Hirti sem eru einsog Ómar sauðtryggir Framsóknarmenn. Annars veistu það Ómar minn að ef þér liggur eitthvað á hjarta, (ég veit að þú lest bloggið mitt) þá máttu komenta hérna í opna net-löggu-lausa kerfinu mínu einsog þér sýnist. Og meðan ég man, þessi kæra sem þú hótaðir mér og staðfestir í fréttablaðinu að væri á leið til mín, fer hún ekkert að koma?? Þú ferð nú varla að hafa þetta á ferilskránni þinni að hafa í innantómum hótunum við fólk?? 

Veriði sæl!   


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband